PARÍSARmýslan

sunnudagur, desember 04, 2005

Sannkallaðir ofurtúristar!!! Frá meisturum listaheimsins til stórmennskubrjálæðis konunganna...


Í vikunni komu ma og pa að heimsækja mig- takk fyrir frááábæra viku! Það var geysilega gaman enda var ég ekki búin að sjá þau í um þrjá mánuði. Það var eintómt “bella vida” hjá okkur enda var ferðinni heitið á veitingahús á hverju kvöldi og við skemmtum okkur afskaplega vel í hlutverki ofurtúristans. Flökkuðum um í leigubíl og komumst þannig yfir ótrúlega margt. Meðal annars fórum við til Montmartre þar sem má finna hina víðfrægu kirkju “Sacré-Cœur” og hverfið þar sem margir af heimsins bestu málurum héldu sig á síðustu öld eins og t.d. Van Gogh, Picasso, Salvador Dalí og fleiri. Það var mögnuð upplifun að koma á torgið þar sem ég vissi að meistararnir sjálfir höfðu setið og málað á góðviðrisdögum. Það eina var að okkur var frekar kalt enda komin upp á hæsta “fjallið” í París (meira eins og hóll en jæja...greinilega nógu hátt uppi til að þar sé kaldara). En maður bjargaði því jú bara með því að skella sér inn á gamalt franskt kaffihús í heitt kakó. Einstaklega kósí :)
Stuttu seinna fórum ég og mamma til Versala á meðan pabbi hlustaði á fyrirlestra á læknaþingi sem átti sér stað á sama tíma. Versalir eru ógleymanlegir! Lúðvík XIV lét byggja þessa stórhöll til þess að sýna fram á völd sín en aumingja Lúðvík XVI þurfti að borga fyrir eyðslusamt líf forvera síns með því að krefjast hærri skatta af almúganum. Þetta er engin venjuleg höll því hvert sem litið er má sjá silfur og gull. Loftin þekja vegleg málverk sem eru römmuð inn í skrautramma úr gulli! - Bara svona til að gefa smá hugmynd um extravagansið! Kannski ekki skrýtið að fólk hafi verið óánægt með aukna skatta enda hefur þetta kostað sitt. Stuttu seinna átti franska byltingin sér stað. Þó þetta hafi að sjálfsögðu ekki verið grunnástæðan fyrir byltingunni má velta fyrir sér hvort það hafi ekki haft áhrif. Fólk var fátækt fyrir og ekki bætti þá úr skák að þurfa að borga meira því Lúðvíks XIV vildi sýna hvað hann “ætti” mikla fjármuni...En nóg um vangaveltur. Það er magnað að geta sagt að ég hafi gengið sömu ganga og kóngafólk fyrri alda!
Síðasta daginn áður en ma og pa flugu til Íslands nutum við þess að rölta um hverfið mitt (nærri Latínuhverfinu) enda er það einstaklega “charmant” eða heillandi. Endalaust af litlum sætum götum hvert sem litið er! Við versluðum jólagjafir og fórum út að borða á La Mercerie sem er þekktur veitingastaður í París og hefur verið starfræktur síðan 1970. Gerist ekki franskara! Einnig fannst mér alveg magnað að koma upp á hótleherbergi mömmu og pabba. Það er vægast sagt í öðrum dúr en litla þakíbúðin mín þar sem ekkert virkar hehe. Notaði hvert tækifæri til að fara í heita sturtu því það sem stendur til boða heima fyrir er lítil buna sem á mælikvarða Frakka er “bara nokkuð gott.” Ég held að maður sé of góðu vanur heima á Íslandi. En ég er samt að “fíla” þennan bohemian-lífsstíl sem ég er að upplifa þessa stundina í ræmur. Fyrst ég er hérna er um að gera að fara alla leið enda er erfitt að finna meiri “franska-stúdentaíbúð” en þá sem ég bý í. : )

XXXX

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home