PARÍSARmýslan

þriðjudagur, september 20, 2005

Mætt á svæðið!

Jæja, þá er frúin loksins mætt á svæðið eftir langa bið. Byrja ferðina eins og þið vitið í Þýskalandi til að heimsækja Ömma :)
Það er heilmikið búið að gerast hér og er mikið fjör á svæðinu. Enda allir skiptinemarnir nýkomnir og er því nánast djamm á hverju kvöldi. Maður þarf að hafa sig allan við til þess að standa sig með þessu liði! Ég geri mitt besta. Maður verður nú að sýna og sanna að maður er sannur Íslendingur í húð og hár. Í kvöld er svo stefnan tekin á keiluna þar sem ég mun án efa tapa með stíl því eins og margir vita er ég voðalega klaufsk með keilukúluna. En ég ætla samt að mæta og gera mitt besta. Það er líka aldrei að vita nema það séu einhverjir sem eru ennþá lélegri en ég þó ég eigi satt að segja ekki von á því. Á morgun er svo karókí. Einn af skiptinemunum er óperusöngvari af bestu gerð og verður þetta því eflaust skrautlegt kvöld. Svo er bara spurning hvort mín kæra æði á sviðið eða ekki... ;) Eflaust geri ég það ef ég þekki mig rétt.
Ég hitti frönsku skiptinemana í dag og var gott að geta loksins tjáð sig á frönsku. Það er nefnilega svo furðulegt að ef það er ekki enska í kringum mig á erlendri grundu vill franskan alltaf brjótast út. Ég hef meira að segja staðið mig að því að svara Þjóðverjum á frönsku. Furðulegt. Það er svona þegar maður kann ekkert í þýsku nema "Ja, ich libe dich og svo auðvitað SPIDELHUND". Ég veit ekki hvort það er raunverulegt orð en mér finnst þetta bara svo hræðilega hlægilegt orð að það er mottó vikunnar hjá mér. Þegar ég lyfti glasi til að skála verður SPIDELHUND ávalt fyrir valinu!
Og allir saman nú: SPIDELHUND!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home